Ragnar Aðalsteinsson, verjandi fjögurra sakborninga í máli ákæruvaldsins gegn níu einstaklingum sem gefið er að sök að hafi ráðist á Alþingi, sagði enga rannsókn hafa farið fram hjá lögreglu á meintri árás eða hvort sjálfræði Alþingis hafi verið í hættu. Þetta kom fram við munnlegan málflutning sem fram fer í Héraðsdómi Reykjavíkur.
Allir níu sakborningar eru ákærðir fyrir brot gegn Alþingi, brot gegn valdstjórninni, almannafriði og allsherjarreglu og húsbrot. Í ákærunni segir að með háttsemi sinni hafi sakborningar rofið friðhelgi Alþingis og starfsfrið auk þess sem öryggi Alþingis var hætta búin.
Ragnar sagði að af lögregluskýrslum megi ráða að til rannsóknar hafi verið húsbrot og brot gegn valdsstjórninni. Ekki hafi í neinu verið rannsökuð árás á Alþingi. Hann sagði árás ekki lögfræðilegt hugtak og því verði að notast við almennar orðskýringar. Orðið árás sé skýrt sem atlaga með vopni. Engin þeirra þrjátíu einstaklinga sem komu við í þinghúsinu þennan dag hafi hins vegar borið vopn.
Þá sagði hann ákæruvaldið augljóslega blanda saman hugsanlegum árekstrum við þingverði og svo Alþingi. Hann sagði 100. gr. almennra hegningarlaga ekki hafa verið setta inn í lög til varnar þingvörðum. Hún eigi að tryggja að Alþingi geti starfað. Þingverðir njóti hinsvegar verndar sem opinberir starfsmenn. Greinin hljóðar svo:
Hver, sem ræðst á Alþingi, svo að því eða sjálfræði þess er hætta búin, lætur boð út ganga, sem að því lýtur, eða hlýðir slíku boði, skal sæta fangelsi ekki skemur en 1 ár, og getur refsingin orðið ævilangt fangelsi, ef sakir eru mjög miklar.
Þá sagði Ragnar að þingverðirnir hafi farið út fyrir valdsvið sitt umræddan dag. Þeir séu ekki lögreglumenn og eigi aðeins að miðla upplýsingum en ekki toga í gesti Alþingis. Aðgerðir þeirra hafi því verið ólöglegar.