Álfheiður Ingadóttir, þingmaður Vinstrihreyfingarinnar-græns framboðs, sagði á Alþingi í dag að hún hefði verið beðin um að réttlæta þau ummæli sín í morgun, að hún velti því fyrir sér hvort um væri að ræða alvarlegt mál eða storm í vatnsglasi þegar tölva fannst í auðu skrifstofu í húsnæði Alþingis í febrúar í fyrra.
Álfheiður sagðist ekki geta réttlætt það, að engin lögreglurannsókn hefði farið fram á tölvufundinum og hún gæti heldur ekki réttlætt það að þingheimi eða forsætisnefnd þingsins var ekki skýrt frá málinu. Hvort tveggja væri forkastanlegt.
„Ég mun ekki réttlæta það að ókunn tölva hafi verið tengd við tölvukerfi Alþingis í herbergi þingmanns úti í Austurstræti. En yfirlýsingar um alvarleika þessa máls byggja á getgátum einum meðan engin rannsókn hefur farið fram. Og málatilbúnaður Morgunblaðsins hér í morgun er til þess eins fallinn að koma höggi á og kasta rýrð á einstaka þingmenn og jafnvel þingflokka og kannski ekki síst óvin bandarískra hernaðaryfirvalda nú um stundir, upplýsingavefinn WikiLeaks," sagði Álfheiður. „Þær ályktanir sem menn eru að draga af þessum getgátum sínum eru að mínu viti ósæmilegar fyrir þingið."