Þegar Jóhanna Sigurðardóttir var spurð um það í Lundúnum í dag hvað Bretar gætu lært af Íslendingum sagði hún við David Cameron, forsætisráðherra Bretlands, að hún hefði frétt að hann hefði eignast barn í ágúst. Þegar hann kinkaði glaðlega kolli sagði Jóhanna: „Ef Cameron væri íslenskur væri hann að byrja núna í þriggja mánaða fæðingarorlofi."
Bresku blöðin Financial Times og Economist segja frá þessu á fréttavefjum sínum í kvöld. Jóhanna var í Lundúnum ásamt öðrum forsætisráðherrum Norðurlandanna og forsætisráðherrum Eystrasaltslandanna á fundi sem Cameron bauð til.
Cameron sagði eftir fundinn, sem stóð yfir í tvo daga, að „norðurbandalagið" hafi burði til að verða drifkraftur í Evrópu í þróun opnari markaðar, grænnar tækni og fjölskylduvænna stefnumála.
Að sögn Financial Times sagði Cameron að allir gætu lifað góðu lífi ef þeir sameinuðu orkustefnu Noregs, atvinnuþátttöku kvenna á Íslandi, græna orku Danmerkur og staðfestu Letta sem tókst að snúa niðurskurði í hagvöxt.
Markmið fundarins var, að sögn íslenska forsætisráðuneytisins, að deila þekkingu og reynslu af árangursríkum verkefnum, bæði í stjórnsýslu og á einkamarkaði, sérstaklega varðandi grænan hagvöxt, velferð og nýsköpun.
Breskir fjölmiðlar gerðu því raunar skóna, að Cameron vildi með fundinum styrkja stöðu Breta í hópi efasemdaríkja innan Evrópusambandsins. Af þjóðunum níu, sem áttu fulltrúa á fundinum, eru sjö í ESB en aðeins tvær nota evru. Þessu vísuðu talsmenn Camerons á bug.
Financial Times segir, að Steve Hilton, ráðgjafi Camerons, hafi átt hugmyndina að fundinum en hann telji að Bretar geti styrkt samkeppnisstöðu sína verulega með því að fjárfesta í grænni og stafrænni tækni og taka jafnframt upp fjölskylduvænni stefnu í atvinnumálum.
Hilton valdi einnig fundarstaðinn, Whitechapel listasafnið í austurhluta Lundúna, með það fyrir augum að þjóðarleiðtogarnir og forvígismenn í viðskiptum gætu átt notalegar samræður í óformlegu umhverfi.