Gunnar Ármannsson, framkvæmdastjóri PrimaCare, segir erlenda fjárfesta, sem séu að skoða fjárfestingarmöguleika á Íslandi, hafi miklar áhyggjur af pólitískri áhættu hér á landi. Hún leiði til þess að fjárfestar haldi að sér höndum.
Í samtali við mbl.is bendir Gunnar á að undanfarna mánuði hafi aðili unnið náið með fyrirtækinu við að kynna hugmyndina. „Það sem hann hefur sagt við okkur, eftir að hafa fengið fyrstu viðbrögð, er að mörgum erlendum fjárfestum lítist vel á þessa hugmynd. En þegar þeir heyra að hún eigi að vera framkvæmd á Íslandi þá vilja þeir ekki koma nálægt þessu verkefni.“
PrimaCare hyggst reisa einkasjúkrahús í Mosfellsbæ sem mun bjóða upp á sérhæfðar aðgerðir og meðferðir, einkum fyrir útlendinga.
Gunnar segir að umræddur aðili hafi í framhaldinu bent erlendu fjárfestunum á að verkefnið sé ekki háð íslenskum aðstæðum. Verið sé að tala um innflutning á erlendum sjúklingum, markaðurinn sé erlendur og tekjur í erlendum gjaldmiðli. Þannig að áhættan sem felist í íslensku hagkerfi snerti verkefnið lítið.
Takist mönnum að sannfæra erlendu
fjárfestana um þetta vakni ávallt sama spurningin: „Hver er afstaða
íslenskra stjórnvalda til verkefnisins?“ Ekki sé verið að spyrja um
regluverkið á Íslandi, sem fjárfestarnir þekki.
Erlendu fjárfestarnir fylgist grannt með því sem sé að gerast á Íslandi, og nefnir Gunnar mál HS Orku og Magma Energy í þessu sambandi. „Þeir sjá að leikreglum er breytt eftir á, ef stjórnvöldum þykir það henta. Menn eru áhyggjufullir og þetta truflar vinnuna hjá okkur.“
Nauðsynlegt sé að ræða málið af alvöru og fá fram afstöðu stjórnmálamanna til verkefnisins.
Það sé alvarlegt ef ráðamenn þjóðarinnar segi einfaldlega að þeir muni breyta lögunum séu lögin þeim ekki að skapi. Gunnar vill að stjórnvöld séu skýr, taki afstöðu í málinu og fylgi henni. Hætti öllum hringlandahætti.
„Allt tal um eignarnám er skelfilegt. Ekki síst þegar það er skoðað ofan í kjölinn að menn höfðu öll tækifæri til að grípa í taumana áður en málið gekk svona langt. Hvaða skilaboð eru það sem erlendir fjárfestar eru þá að fá?“
Gunnar segir að það sé bæði neikvætt og erfitt að þurfa að eyða orku í það að sannfæra erlenda fjárfesta um að það sé öruggt að fjárfesta á Íslandi.
„Ef menn ætla á annað borð að fá erlenda fjárfestingu inn í landið þá held ég að þetta sé eitt af stærstu vandamálunum. Mér er alveg sama hvað pólitíkusarnir segja sjálfir um það. Þetta er sá raunveruleiki sem við stöndum frammi fyrir, sem eru að reyna fá erlenda fjárfestingu inn í landið.“