Ásta Ragnheiður Jóhannesdóttir, forseti Alþingis, sagði á Alþingi í dag, að engar vísbendingar væru um hver hefði komið fyrir tölvu í skrifstofuherbergi í húsnæði á vegum Alþingis á síðasta ári. Sagði hún greinilegt að fagmaður hefði verið að verki og afmáð spor sem lögreglan gæti fetað sig eftir við rannsókn.
Ásta Ragnheiður sagði, að skrifstofustjóri Alþingis hefði sagt sér frá því 2. febrúar á síðasta ári, að tveir starfsmenn tölvudeildar þingsins hefðu fundið tölvu inni í auðri skrifstofu á 5. hæð húss handan Austurvallar þar sem eru meðal annars skrifstofur þingmanna Sjálfstæðisflokksins og Hreyfingarinnar.
Sagði Ásta Ragnheiður, að tölvan hefði verið hálffalin og ekki í eigu Alþingis en tengd tölvuneti þingsins og borðtölva í herberginu hafði verið aftengd. Fyrsta athugun benti til þess að óeðlileg starfsemi hefði farið fram í tölvunni og hún var í þeim ham, sem notaður er til að fylgjast með tölvuneti þingsins. Þó væri takmarkað hvað hún gæti hafa séð.
Aðstæður voru myndaðar, slökkt á tölvunni og farið með hana í skála við þinghúsið. Ákveðið var að tilkynna málið til lögreglunnar. Engar frekari vísbendingar hjá þingvörðum hvernig tölvan hefði komist á þennan stað eða hver ætti hana og enginn hefði spurst fyrir um hana.
Ásta Ragnheiður sagði, að rannsókn lögreglunnar hefði staðið yfir í um viku og 9. febrúar var skrifstofustjóra Alþingis verið tilkynnt að rannsókninni hefði lokið án árangurs. Engin einkennismerki hefðu fundist, engin fingraför og ekkert í daglegu starfi lögreglunnar við athugun annarra mála tengdist þessum tölvufundi. Málinu væri því lokið af hálfu lögreglu en það var mat hennar að fagmaður að verki og hann hefði afmáð öll þau spor sem lögreglan gæti fetað sig eftir.
„Ég taldi því ekki eðlilegt á því stigi, að ég eða aðrir starfsmenn þingsins hefðu uppi fyrirspurnir um málið meðal þingmanna. Að ráðum lögreglunnar lét ég hins vegar forsætisráðherra, yfirmann stjórnarráðsins, vita um málið eftir því sem mér var það kunnugt. Tölvudeild skrifstofu þingsins fór mjög rækilega yfir hvort þess væru nokkur merki að óviðkomandi aðili hefði farið í gögn þingsins, hvort einhverjar skemmdir hefðu verið unnar og hvort ástæða væri til að ætla að gögn hefðu verið skoðuð, afritað og tekin. Svo reyndist ekki vera. Þannig stóð málið að lokinni rannsókn lögreglu og enn hefur ekkert nýtt í málinu. Við vitum ekkert meira um það," sagði Ásta Ragnheiður.
Hún sagði að tölvudeild hefði fengið fyrirmæli um að fara yfir allan tölvubúnað þingsins, gera á honum breytingar ef þurfa þætti og efla hann. Það hefði verið gert mjög skipulega og því ætti atburður af þessu tagi, að óþekkt tölva tengist tölvuneti þingsins, ekki að geta endurtekið sig.
Ásta Ragnheiður sagði að það hefðu verið mjög eindregin tilmæli frá tölvudeild þingsins að málið yrði að svo komnu ekki gert opinbert af öryggisástæðum. Með þetta í huga, og það að engar vísbendingar hefðu komið frá lögreglu eða starfsmönnum þingsins sem á var byggjandi hefði hún ákveðið að láta málið liggja til að koma ekki af stað vangaveltum eða grunsemdum sem ættu sér enga stoð.
„Málið sem slíkt hvarf af mínu borði og kom ekki aftur til minna kasta fyrr en skrifstofustjóri skýrði mér frá því seint í gærkvöldi að blaðamaður hefði haft samband við hann um málið og virtist þekkja helstu þætti þess," sagði Ásta Ragnheiður.
Hún sagðist heita því að skapa það öryggi með tölvugögn Alþingis sem fullkomnasti tölvubúnaður geti veitt. Forsætisnefnd muni áfram fjalla um málið og sagðist Ásta Ragnheiður vilja fullvissa þingmenn um að því verði fylgt eftir af festu.