Gagnrýna að þingmenn voru ekki látnir vita

Frá Alþingi.
Frá Alþingi.

Þingmenn gagnrýndu í dag, að stjórnendur Alþingis skyldu ekki gera þingmönnum grein fyrir því í febrúar í fyrra þegar tölva fannst í auðu skrifstofuherbergi í húsnæði Alþingis.

Ásta Ragnheiður Jóhannesdóttir, forseti Alþingis, sagði í munnlegri skýrslu um málið að tölvudeild þingsins hefði farið þess á leit við hana að gera málið ekki opinbert af öryggisástæðum og hún hefði orðið við því. Hún hefði þó skýrt Jóhönnu Sigurðardóttur, forsætisráðherra, frá málinu. 

Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokks, sagði að það hefði þurft að skýra þingheimi frá þessu máli og þótt grunsemdir hafi ekki beinst að neinum sérstökum liggi fyrir upplýsingar  um að þarna voru fagmenn að störfum. 

Þórunn Sveinbjarnardóttir, formaður þingflokks Samfylkingarinnar, sagði að öryggi og leynd færu ekki alltaf saman og það hefði verið betra að upplýsa forsætisnefnd eða formenn þingflokka um málið. Það sýndi, að öryggismál hefðu ekki verið í nægilega góðu lagi.

Gunnar Bragi Sveinsson, formaður þingflokks Framsóknarflokksins, sagði ljóst  að málið er grafalvarlegt og einnig væri alvarlegt hvernig haldið var á því í upphafi. Bregðast þurfi við með einhverjum hætti því þetta kallaði á vangaveltur, viðbrögð og breytt vinnubrögð. 

Árni Þór Sigurðsson, þingflokksformaður Vinstri grænna, sagði að það hefði verið misráðið að veita ekki þingmönnum upplýsingar um það sem átti sér stað. Skortur á upplýsingum þýddi, að menn byggju við falskt öryggi. 


mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert