„Menn stígi varlega til jarðar“

Birgitta Jónsdóttir, þingmaður Hreyfingarinnar.
Birgitta Jónsdóttir, þingmaður Hreyfingarinnar. mbl.is/Árni Sæberg

„Mér finnst að fólk eigi að fara varlega í það að draga ályktanir og ýja að einhverju sem það hefur engar sannanir fyrir eða forsendur,“ segir Birgitta Jónsdóttir, þingmaður Hreyfingarinnar, spurð út í meintar njósnir á Alþingi.

Það minni sig einna helst á bandarískan spennuþátt hvernig menn hafi túlkað þessar fréttir.

Morgunblaðið greinir frá því í dag að að fartölva hafi fundist í auðu herbergi í húsnæði á vegum Alþingis við Austurstræti í febrúar í fyrra. Lögreglan var kölluð til, en grunur lék á að henni hefði verið komið fyrir til þess að brjótast inn í tölvur þingmanna og tölvukerfi Alþingis, hlaða niður gögnum og senda í aðra tölvu.

Birgitta segist vera hissa á því að hafa ekki fengið að vita um þennan tölvufund fyrr. Aðspurð segist hún fyrst hafa fengið að vita um málið í morgun á fundi forsætisnefndar þingsins.

„Samkvæmt því sem kom fram á fundi forsætisnefndar í morgun, frá forseta þingsins, var að Bjarni Ben[ediktsson] vissi af þessu og Jóhanna Sigurðardóttir, en ekki neinir aðrir þingmenn,“ segir Birgitta.

Það hefði verið gagnlegt að fá að vita af þessu og ræða í framhaldinu um tölvuöryggi þingsins. „Sér í lagi í ljósi þess sem ég er að upplifa núna frá hendi bandarískra yfirvalda. Tölvuöryggi almennra borgara eða þingmanna er ákaflega lítið ef þar er ekki inni í öruggari kerfum,“ segir hún.

Birgitta bendir á að tölvan hafi fundist á sömu hæð og Hreyfingin og Sjálfstæðisflokkurinn séu með aðstöðu. Umrætt herbergi heyri bæði undir varaþingmenn Hreyfingarinnar og Sjálfstæðisflokksins. Hún segir að menn eigi ekki að dylgja með það að Hreyfingin eða Wikileaks tengist málinu frekar en einhverjir aðrir

„Mér finnst að fólk eigi að stíga varlega til jarðar,“ segir hún og gagnrýnir fréttaflutning Morgunblaðsins, þar sem tekið sé fram að tölvan hafi fundist á skrifstofu þingmanna Hreyfingarinnar og að grunur leiki á að tölvuþrjótar á vegum Wikileaks hafi komið tölvunni fyrir. Í fréttinni sé of mikið um túlkanir.

Birgitta segir að þeir sem starfi fyrir Wikileaks séu ekki þekktir fyrir það að brjótast inn í tölvukerfi til að ná í upplýsingar. Aftur á móti hafi þeir tekið við gögnum frá heimildarmönnum til að afhenda blaðamönnum og almenningi. 


mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert