Nímenningarnir réðust í sameiningu að Alþingi í þeim ásteningi að trufla störf þess og hindra að þingfundur færi fram. Um skipulagt brot var að ræða og öryggi Alþingis hætta búin. Þetta sagði settur ríkissaksóknari í munnlegum málflutningi í morgun.
Lára V. Júlíusdóttir, settur ríkissaksóknari í máli ákæruvaldsins gegn níu einstaklingum sem gefið er að sök að hafa ráðist á Alþingi sagði að ekki hefði verið um friðsamleg mótmæli að ræða 8. desember 2008. Fólkið hafi ruðst inn í húsið með ógnandi framkomu og beitt þingverði ofbeldi. Hún benti á að í stjórnarskrá segi að Alþingi sé friðheilagt, engin megi raska friði þess eða frelsi.
Lára sagði að fólkið, um þrjátíu manns, hefði komið saman í Iðnó kl. 15 umræddan dag og skipt með sér verkum áður en gengið var að þinghúsinu. Einn nímenningana fékk það verkefni að halda hurðinni opinni til að hleypa öðrum inn. Annar hafi haldið þingverði föstum, þannig að hann gat ekki kallað eftir hjálp.
Um hafi verið að ræða fyrirfram ákveðna árás, ekki hafi verið um hlutdeildarbrot að ræða gegn 100. gr. almennra hegningarlaga en fullframið í samverknaði. Með engu sé hægt að fella árásina undir hegðan mótmælenda fyrir utan þinghúsið.
Brot gegn 100. gr. varðar að minnsta kosti eins árs fangelsi. Auk þess eru sakborningar ákærðir fyrir fleiri brot, s.s. húsbrot og brot gegn valdsstjórninni.
Málflutningur heldur áfram í Héraðsdómi Reykjavíkur.