Jón Gnarr, borgarstjóri, segir í viðtali við Háskólablaðið, sem gefið er út af nemendum í Háskólanum í Reykjavík, að það eina sem honum hafi fundist leiðinlegt í borgarstjóratíð sinni séu samskipti hans við minnihlutann í borgarstjórn, sem sem honum hafi oft fundist að miklu leyti vera tímaeyðsla.
„Að uppfylla einhver skilyrði um að það verði að vera þessi leiðin og að harkan sé í raun bara hluti af þessu öllu saman. Ég er sjálfur sekur í því. Ég hef stundum misst mig í reiði og dómhörku og jafnvel „paranoju“. Ég hef misst mig í að vera að fokka í þeim þannig að þau haldi að þau séu að drepa mig úr leiðindum. Mér hefur stundum fundist taktíkin vera: Verum leiðinleg við hann og svo segir hann bara einn daginn „Ég nenni þessu ekki, þetta er svo leiðinlegt“. Þannig að ég hef gert svolítið mikið úr því að mér finnist leiðinlegt. Þau gera þá meira í því að vera leiðinleg og þá sjá líka allir hvað þau eru í raun tilbúin að vera leiðinleg. Ég hef alveg spilað inn á þetta," segir Jón í viðtalinu.
Háskólablaðið kemur út á morgun en það er málgagn nemenda við HR og er nú gefið út í annað sinn. Ritstjóri er Sonja Hrund Ágústsdóttir.