Þingmenn höfðu ekki vitneskju um að fartölva hefði fundist í auðu herbergi í húsnæði á vegum Alþingis við Austurstræti í febrúar í fyrra. Fram kom í Morgunblaðinu í dag, að grunur léki á að tölvunni hefði verið komið fyrir til þess að brjótast inn í tölvur þingmanna og tölvukerfi Alþingis, hlaða niður gögnum og senda í aðra tölvu.
Þingmenn ræddu málið í upphafi þingfundar í dag. Ólöf Nordal, þingmaður Sjálfstæðisflokks, sagði að þetta væri mjög alvarlegt mál og hún krafðist þess að tekin yrði um það sérstök umræða í þinginu. Spurði hún hvort forseta Alþingis hefði verið kunnugt um þessa atburði og lögreglurannsókn sem fylgdi í kjölfarið.
Ragnheiður Elín Árnadóttir, þingmaður Sjálfstæðisflokks, vildi vita hvers vegna þingmönnum hefði ekki verið greint frá þessu og spurði einnig hvort þingmenn gætu treyst því að gögn þeirra væru öruggt. „Stóð til að láta okkur vita af þessu?" spurði hún.
Sigurður Kári Kristjánsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, sagði að svo virtist sem um væri að ræða grófustu árás sem Alþingi hefði orðið fyrir í sinni sögu. Þá sagði hann, að það vekur grundsemdir, að þessi tölva hafi fundist í skrifstofuhúsnæði Hreyfingarinnar en einn þingmaður hennar hefði haft náin tengsl við uppljóstrunarvefinn WikiLeaks.
Mörður Árnason, þingmaður Samfylkingarinnar, sagði fráleitt að beina grunsemdum að tilteknum þingflokki og þingmönnum. „Ég held að þingmaður eigi að halda munni,“ sagði hann og beindi orðum sínum til Jóns Gunnarssonar, þingmanns Sjálfstæðisflokksins .Sagði Mörður að forseti Alþingis ætti að íhuga að víta þá þingmenn sem beindu svona ásökunum að öðrum.
Þór Saari, þingmaður Hreyfingarinnar, sagðist sammála því að um væri að ræða mjög alvarlegt mál. Hann mótmælti orðum Sigurðar Kára og benti á að Sjálfstæðisflokkurinn væri einnig með skrifstofur í umræddu húsi. Hann sagði, að formaður Sjálfstæðisflokksins hefði verið látinn vita af málinu þegar í febrúar. Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokks, sagði í umræðunni að þetta væri alrangt.
Álfheiður Ingadóttir, þingmaður Vinstri grænna, sagðist velta því fyrir sér hvort um væri að ræða alvarlegt mál eða storm í vatnsglasi. Aðalatriðið væri að upplýst hefði verið á fundi forsetanefndar Alþingis í vetur að engin ummerki væru um að brotist hefði verið inn í tölvukerfi Alþingis. Sagði hún umræðurnar um málið í morgun bera merki um paranoju.
Ásta Ragnheiður Jóhannesdóttir, forseti Alþingis, sagði að hún hefði rætt málið á fundi
með þingflokkum í morgun og myndi gera þinginu grein fyrir málinu með
formlegum hætti klukkan 14 í dag.
Þórunn Sveinbjarnardóttir, þingmaður Samfylkingarinnar, sagði að hafi verið gerð tilraun til að brjótast inn í tölvukerfi Alþingis væri það grafarleg árás á þingið.
Össur Skarphéðinsson, utanríkisráðherra, sagði að daglega væri lesið um tilraunir tölvuþrjóta til að brjóta sig inn í tölvukerfi víða um heim. „Þetta er hluti af nýjum raunveruleika sem við verðum að sætta okkur við," sagði Össur. Hann sagðist hafa unnið á þingi með þingmönnum Hreyfingarinnar og bæri það mikla virðingu fyrir greindarstigi þeirra að þeir væru ekki svo miklir kjánar að taka þátt í slíku.
Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, sagðist ekki vera sammála Össuri um að þetta væri hluti af nýjum veruleika, sem menn yrðu að sætta sig við. Þetta er óviðunandi. Þegar komnir væru flugumenn inn á Alþingi væri það svo grafalvarlegt að nota verði öll tiltekin ráð til að rannsaka það.