Jón Bjarnason, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, segir vilja Alþingis skýran hvað breytingu á fyrirkomulagi ráðuneytis hans varði. Ekki sé vilji til þess að leggja það niður og fella inn í atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneyti. Fyrirætlanir um slíkt tengist ekki andstöðu hans við aðild að ESB.
Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, beindi þeirri spurningu til Jóns hvort rétt væri að áætlanir um breytt fyrirkomulag stjórnarráðsins væru einkum til komnar vegna andstöðu sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytisins í núverandi mynd við aðild að ESB.
Jón svaraði því til að þegar frumvarp um breytingar á stjórnarráðinu hafi fyrst verið til umfjöllunar hafi verið gert ráð fyrir þessu. Við afgreiðslu Alþingis hafi breytingar eru sneru að honum aftur á móti verið felldar út. „Ég tel að sú ákvörðun standi. Ráðuneytið er mikilvægt á meðan á aðildarviðræðum stendur, þar sem allar greinar sem heyra undir ráðuneytið eru andvígar aðild,“ sagði Jón.