Yfirheyrslur sérstaks saksóknara í kjölfar húsleita í dag standa enn yfir og munu að líkindum standa fram á kvöld. Samkvæmt heimildum blaðsins er Sigurjón Þ. Árnason, fyrrverandi bankastjóri Landsbankans, nú í yfirheyrslu. Fjórir voru handteknir í dag og færðir til skýrslutöku. Óvíst er hvort krafist verður gæsluvarðhalds yfir einhverjum þeirra.
Húsleit var gerð á fimm stöðum á höfuðborgarsvæðinu í dag, og fjórir handteknir í tengslum við þær. Að minnsta kostir þrír þeirra eru fyrrverandi starfsmenn Landsbankans, en ekki er vitað hver fjórði maðurinn er að svo stöddu.
Mikið hefur verið um mannaferðir í og úr húsakynnum sérstaks saksóknara nú undir kvöld. Aðgerðirnar í dag voru umfangsmiklar, en samkvæmt tilkynningu tóku um 35 starfsmenn embættisins þátt í þeim.
Rannsóknin í dag beinist að millifærslum af reikningi Landsbankans í Seðlabanka Íslands til MP banka og Straums fjárfestingabanka þann 6. október 2008, daginn sem neyðarlögin voru sett.
Jafnframt eru kaup Landsbankans á verðbréfum af dótturfélagi sínu, Landsvaka, eftir að sjóðnum var lokað til skoðunar. Einn hinna handteknu, Stefán Héðinn Stefánsson, var stjórnarformaður Landsvaka.
Að sögn Ólafs Þ. Haukssonar, sérstaks saksóknara, leikur grunur á að þessar ráðstafanir á fjármunum bankans hafi brotið gegn auðgunarbrotakafla hegningarlaga, nánar tiltekið ákvæðum um skilasvik þar sem kröfuhöfum bankans hafi verið mismunað. Viðurlög við slíku broti eru allt að 6 ára fangelsi.
Sigurjón er eftir sem áður í gæsluvarðhaldi, og verður þar til á þriðjudaginn.