Lögfræðingar Evrópusambandsins kanna nú svigrúm sambandsins til aðgerða gegn íslenskum stjórnvöldum í makríldeilunni og er niðurstöðu að vænta á næstunni.
Þetta kemur fram í svari Olivers Drewes, talsmanns Mariu Damanaki, sjávarútvegsstjóra Evrópusambandsins, við fyrirspurn Morgunblaðsins en hann gaf kost á símaviðtali í gær.
Drewes er orðvar þegar hann er inntur eftir lagaheimildum ESB og vísar þegar gengið er á hann á starf lögfræðinga sem skili áliti á næstunni. Hann kvaðst jafnframt ekki vera í aðstöðu til að tjá sig um það hvort aðgerðirnar verði útvíkkaðar þannig að þær nái til allra afurða úr makríl. Hann lætur þó hafa eftir sér að unnið sé hratt.
Haft var eftir Össuri Skarphéðinssyni utanríkisráðherra hér í blaðinu á laugardag að það sem haft hefði verið eftir Drewes um bannið stangaðist „algjörlega á við það sem kom fram á fundi sameiginlegu EES-nefndarinnar“ 15. janúar.
„Eina markmið fundarins var að gera aðildarríkjum EES-samningsins grein fyrir aðgerðunum. Þetta var stuttur fundur, um 10-15 mínútna langur,“ segir Drewes og vísar til undirbúnings löndunarbanns en umræddan fund sátu fulltrúar ESB og stjórnvalda í Noregi, Íslandi og Liechtenstein.