Verkfræðingafélagið Íslands (VFÍ) og Tæknifræðingafélag Íslands (TFÍ) hafa ákveðið að fresta ráðstefnu sem átti að halda í næsta mánuði um samfélagsleg áhrif álvers- og virkjunarframkvæmda á Austurlandi.
Ástæðan er einkum sú að Landsvirkjun (LV) vildi ekki taka þátt í ráðstefnunni eins og lagt var upp með hana. Samkvæmt upplýsingum Morgunblaðsins voru þau svör gefin m.a. að skipulag ráðstefnunnar væri ekki í anda breyttrar stefnu og ímyndar Landsvirkjunar.
Tilefni ráðstefnunnar er skýrsla sem kom út fyrr í vetur um áhrif álvers- og virkjunarframkvæmda á Austurlandi árið 2002-2008, þ.e. Kárahnjúkavirkjunar og álvers Alcoa-Fjarðaáls í Reyðarfirði. Nokkrum hagsmunaaðilum var boðið að vera með framsögu á ráðstefnunni. Auk Landsvirkjunar, sem rekur Kárahnjúkavirkjun, voru það m.a. skýrsluhöfundar, fulltrúar sveitarfélaga á Austurlandi og Alcoa. Án aðildar Landsvirkjunar þótti ekki rétt að leggja upp með ráðstefnuna eins og hún var hugsuð í upphafi.
Hörður Arnarson, forstjóri Landsvirkjunar, segir að viðræður hafi átt sér stað við Verkfræðingafélagið um fyrirkomulag ráðstefnunnar.
„Við vöktum athygli á ákveðnum sjónarmiðum, þannig að aðkoma allra aðila yrði tryggð að ráðstefnunni, eins og þeirra sem hafa gagnrýnt verkefnið. Það var niðurstaða okkar og félagsins að við ætluðum að vinna áfram í málinu,“ segir Hörður.
„Þetta er umdeild framkvæmd. Ef tilgangurinn er að skapa sátt um niðurstöðuna þá töldum við mikilvægt að tryggja að öll sjónarmið kæmu fram. Við viljum hafa upplýsta umræðu á breiðum grunni og það er í anda þeirra samskipta sem við viljum hafa uppi um okkar verkefni,“ segir hann ennfremur.