Gríðarlegir hagsmunir undir

Hörgárdalur.
Hörgárdalur. www.mats.is

Stór hluti heimila í Hörgárbyggð og Arnarneshreppi við Eyjafjörð hefur átt í alvarlegum fjárhagslegum erfiðleikum vegna mikilla skulda sem stofnað var til þegar stofnfé Sparisjóðs Norðlendinga var aukið. Héraðsdómur Reykjavíkur sýknaði hins vegar tvo sparifjáreigendur í innheimtumáli, sem Íslandsbanki höfðaði og taldi að mönnunum hefði ekki verið gerð grein fyrir þeirri áhættu, sem fylgdi skuldsettum kaupum á nýju stofnfé í sjóðnum.

Fyrir samruna þess Sparisjóðs Norðlendinga og Byrs sparisjóðs í desember 2007 var ákveðið að auka stofnfé hins fyrrnefnda til að ná réttum hlutföllum í eign stofnfjáreigenda hins sameinaða sjóðs. Vörðu stofnfjáreigendur á þriðja hundrað milljóna króna til þess. Á sama tíma var stofnfé Byrs aukið um 29 milljarða króna, eins og frægt er orðið, og tóku Norðlendingarnir þátt í þeirri aukningu eins og aðrir stofnfjáreigendur í Byr.

Margir tóku lán hjá Glitni til að fjármagna stofnfjáraukninguna og eru þessi lán nú hjá Íslandsbanka. Kostnaður stofnfjáreigenda í Sparisjóði Norðlendinga nam samtals tæpum þremur milljörðum króna vegna þessa.

Skuldir upp á tugi milljóna

Stofnfjáreigendur í Sparisjóði Norðlendinga voru um hundrað talsins og nam meðalskuld á hvern stofnfjáreiganda því um þrjátíu milljónum króna. Margir tóku hins vegar gengistryggð lán, að hluta til eða að öllu leyti, og hefur fjárhæð þeirra lána hækkað til samræmis við gengishrun krónunnar. Þá voru hjón í sumum tilvikum bæði stofnfjáreigendur í sjóðnum og geta skuldir einstakra heimila því verið hátt í hundrað milljónir króna.

Sparisjóður Norðlendinga varð til við samruna Sparisjóðs Glæsibæjarhrepps og Sparisjóðs Akureyrar og Arnarneshrepps árið 1997. Í Glæsibæjarhreppi var mjög almenn stofnfjáreign í sjóðnum, eins og sést á því að í sameinuðum sparisjóði voru íbúar í þeim hreppi um helmingur stofnfjáreigenda.

Talið var að um helmingur íbúa hreppsins fyrrverandi hefði átt stofnfé í sjóðnum og tóku þeir allir þátt í stofnfjáraukningunni. Glæsibæjarhreppur rann saman við Skriðuhrepp og Öxnadalshrepp árið 2001 undir nafninu Hörgárbyggð. Í því sveitarfélagi búa innan við fimm hundruð manns. Hlutfall þeirra, sem eiga yfir höfði sér persónulegt gjaldþrot eða eignaupptöku, er því mjög hátt. Staðan í Arnarneshreppi er sögð svipuð, en þar búa aðeins um 180 manns og er talið að um helmingur heimila þar sé í alvarlegum vanda vegna skuldsettrar stofnfjáraukningar.

Líkt og aðrir stofnfjáreigendur í Byr stóðu Norðlendingar í þeirri trú að lánin sem þeir tóku vegna stofnfjáraukningarinnar væru í raun áhættulaus. Stofnfjárbréfin sjálf væru eina veðið fyrir lánunum og færi allt á versta veg gæti bankinn ekki gengið að öðrum eignum stofnfjáreigendanna. Þeir væru með öðrum orðum ekki persónulega ábyrgir.

Héraðsdómur komst að þeirri niðurstöðu í dag, að stofnfjáreigendurnir hefðu samþykkt lántökuna vegna ónákvæmrar upplýsingagjafar af hálfu Glitnis, á þeirri röngu forsendu að áhætta þeirra takmarkaðist við hin veðsettu stofnfjárbréf.

Ef fallist yrði á dómkröfur Íslandsbanka verði ekki betur séð en að stofnfjáreigendurnir myndu bera allt tjónið af því, að stofnféð varð verðlaus við hrun fjármálakerfisins. 

Fleiri byggðir í svipaðri stöðu

Fleiri smærri sveitarfélög eru í svipaðri stöðu og Hörgárbyggð. Um fimmta hvert heimili í Húnaþingi vestra og Bæjarhreppi stendur frammi fyrir alvarlegum fjárhagsvanda eða jafnvel persónulegum gjaldþrotum vegna skuldsettra kaupa á stofnfé í Sparisjóði Húnaþings og Stranda.

Sparisjóðurinn rann saman við Sparisjóð Keflavíkur árið 2007, en áður en gengið var frá sameiningunni var ákveðið að styrkja stöðu Sparisjóðs Húnaþings og Stranda. Stofnfé sjóðsins hafði fyrir þann tíma verið tæpar tvær milljónir króna, en eftir aukningu var stofnfé tveir milljarðar.

Í sveitarfélögunum tveimur, Húnaþingi vestra og Bæjarhreppi, búa um 1200 manns og af þeim voru um 200 stofnfjáreigendur í sparisjóðnum. Um 140 eigendur tóku lán vegna stofnfjáraukningarinnar.

Þá kom fram nýlega, að um 150 stofnfjáreigendur Sparisjóðs Svarfdæla tóku þátt í stofnfjáraukningu sjóðsins í lok árs 2007. Að meðaltali fjárfesti hver og einn þeirra í 3,5 milljónum af nýju stofnfé. Stofnféð er nú að mestu verðlaust enda hefur Seðlabanki Íslands leyst til sín um 90% af stofnfé sparisjóðsins.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka