Hærri laun og afnám verðtryggingar

Stjórn Hagsmunasamtaka heimilanna segir í áskorun til verkalýðsforystunnar að
leiðrétting lána og afnám verðtryggingar sé sú kjarabót sem bróðurpartur  íslenskrar alþýðu kalli eftir.

„Í yfirstandandi kjarasamningaviðræðum ber verkalýðsforystunni skylda til að láta sig þetta málefni varða ef henni er raunverulega annt um hagsmuni sinna félagsmanna," segir í áskoruninni.

Segja samtökin að þrjú launþegafélög VR, VLFA og Framsýn, hafi þegar  lýst yfir stuðningi við kröfur um almenna leiðréttingu lána og afnám verðtryggingar.

„Vart verður lengur litið fram hjá 780 milljarða halla lífeyrissjóðakerfisins. Óhjákvæmilegt er að endurskoða lífeyrissjóðakerfið samhliða lánakerfinu. Hvorki heimili, ríkissjóður né fyrirtæki landsins geta staðið undir lífeyrissjóðunum í óbreyttri mynd, það liggur í augum uppi. Það hrekkur skammt að segjast standa vörð um kaupmátt þegar skuldir heimila hafa aukist um 1125 milljarða á síðustu 6 árum, um 128%. Arðrán heimila þessa lands gerist nú á tímum að mestu í gegnum okurlánakjör á húsnæðislánum og HH skora á verkalýðshreyfinguna að krefjast ábyrgrar vaxtastefnu og bættra valkosta í húsnæðismálum. Stjórn HH bendir á að viðráðanleg og sanngjörn lánakjör neytenda eru ekki síður mikilvæg en launakjör, bæði fyrir heimilin og atvinnulífið," segir í áskoruninni.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert