Íslendingur nokkur, sem var að fylgjast með íslenska handboltalandsliðinu í Svíþjóð, fagnaði of mikið og endaði í steininum í Lillestrøm í Noregi í stað flugvélarinnar á leið aftur heim til Íslands.
Á vef norska blaðsins Eidsvoll Ullensaker er haft eftir lögregu á Gardermoenflugvelli í Noregi, að Íslendingurinn hafi fagnað sigri Íslands á Noregi í gærkvöldi fyrirfram og verið svo drukkinn á flugvellinum að hann fékk ekki að fara upp í flugvélina til Íslands.
Þegar maðurinn komst ekki með flugvélinni byrjaði hann að dansa og sveifla höndunum og láta öllum illum látum á flugvellinum. Hann var því settur í steininn. „Og þegar handboltahetjurnar hans dönsuðu yfir Noremenn á lokamínútum leiksins sat Íslendingurinn aleinn og sambandslaus við umheiminn," segir blaðið.