Ræddi við Cameron um Icesave

Forsætisráðherrarnir í Lundúnum í vikunni.
Forsætisráðherrarnir í Lundúnum í vikunni. Reuters

Jóhanna Sigurðardóttir, forsætisráðherra, átti fund með David Cameron, forsætisráðherra Bretlands, í Lundúnum í vikunni í tengslum við leiðtogafund, Bretlands, Norðurlandanna og Eystrasaltsríkjanna sem þar var haldinn.

Í tilkynningu frá forsætisráðuneytinu segir að þau Jóhanna og Cameron hafi rætt ýmis tvíhliða mál landanna, meðal annars stöðu Icesave samningsins, Evrópusambandið og efnahagsmál.

Ekki kemur nánar fram hvað þeim fór á milli um þessi mál en forsætisráðuneytið segir að þau hafi rætt sérstaklega um jafnréttismál og feðraorlof, en ljóst sé að ríkisstjórn Bretlands hyggst setja sér markmið um launað feðraorlof sem raunverulega nýtist föður og barni, fyrir árið 2015.

Hafi Cameron lýst miklum áhuga á reynslu Íslands á þessu sviði og færði Jóhanna honum ritið Equal Right to Earn and Care sem kom út árið 2008, en þar er greint frá reynslu af upptöku og framkvæmd feðraorlofs hér á landi.

Fram kemur í tilkynningu forsætisráðuneytisins, að forsætisráðherrarnir allir hafi lýst mikilli ánægju með árangur leiðtogafundarins. Þar kynntu 45 sérfræðingar frá löndunum níu  verkefni, lausnir og leiðir á fundi forsætisráðherranna. Gögn frá kynningunum eru aðgengileg á heimasíðu ráðstefnunnar  svo og upptaka af pallborðsumræðum forsætisráðherranna í lok ráðstefnunnar. 

Haft er eftir Jóhönnu í tilkynningunni, að hún sé mjög stolt og ánægð með framlag íslensku fulltrúanna á þessum fundi.

Forsætisráðherrarnir ákváðu að stefna að öðrum fundi innan árs og verður sá fundur haldinn í Svíþjóð.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert