Telur rök skorta fyrir gæsluvarðhaldi

Hæstiréttur.
Hæstiréttur. mbl.is/GSH

Hæstiréttur klofnaði í afstöðu sinni til gæsluvarðhaldsúrskurðar yfir Sigurjóni Þ. Árnasýni, fyrrverandi forstjóra Landsbankans. Sigurjón kærði úrskurð héraðsdóms en tveir þriggja Hæstaréttardómara, sem dæmdu í málinu, staðfestu þann úrskurð. Þriðji dómarinn taldi rökstuðningi saksóknara ábótavant.

Hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson og Árni Kolbeinsson staðfestu úrskurð héraðsdóms og situr Sigurjón því í gæsluvarðhaldi að óbreyttu þar til síðdegis næsta þriðjudag.

Jón Steinar Gunnlaugsson, hæstaréttardómari, taldi sérstakan saksóknara hins vegar ekki hafa sýnt fram á skilyrði væru til að Sigurjón sætti varðhaldi, og skilaði sératkvæði. Hann segist þó í sératkvæðinu fallast á, að „fram sé kominn rökstuddur grunur um að [Sigurjón] hafi gerst sekur um háttsemi sem fangelsisrefsing er lögð við.“

Jón Steinar segir sérstakan saksóknara rökstyðja kröfu sína með því að málið sem nú sé til rannsóknar sé flókin og yfirgripsmikil. Ný gögn hafi komið fram í málinu sem ekki hafi verið gerð opinber og ekki eigi að vera Sigurjóni, eða vitnum, kunn. 

Jón segir mikilvægt að saksóknari geri grein fyrir því hvaða gögn um ræði, þar sem langur tími sé liðinn frá ætluðum brotum og Sigurjón hafi haft allan þann tíma til að spilla fyrir rannsókninni, hafi vilji hans staðið til þess. Hæstarétti hafi ekki verið kynntar vísbendingar þess efnis. Saksóknari hafi heldur ekki gert grein fyrir því hvers vegna aðrir, sem grunaðir séu um aðild að sömu brotum, sitji ekki áfram í varðhaldi. Jón segir að því beri að fella úrskurð héraðsdóms úr gildi, og Sigurjón þess í stað settur í farbann.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert