Forsvarsmenn ríkisstjórnarinnar standa á tröppum Stjórnarráðsins og „taka undir með þeim sem kyrja vögguvísur yfir atvinnulífinu og erlendri fjárfestingu.“ Þetta segir í pistli á vef Samtaka atvinnulífsins. Nauðsynlegt sé að stjórnvöld greiði götu erlendra fjárfestinga og efli þannig atvinnulífið.
Samtökin segja hverja nefnd stjórnvalda á fætur annarri hafa komist að þeirri niðurstöðu að fjárfesting [Magma] í HS Orku hafi verið samkvæmt lögum. Því sæti furðu að stjórnvöld taki undir með þeim sem nú mótmæli kaupunum.
Fjárfesting, þar með talin erlend, í orkufrekum iðnaði og útflutningsgreinum sé forsenda þess að hægt sé að koma atvinnulífinu á réttan kjöl á ný, og skapa hagvaxtarforsendur. Stjórnvöld verði að leggja áherslu á þessa þætti við gerð nýrra kjarasamninga.