Aðstoðaði danska lögreglu

Miklar óeirðir urðu í Kaupmannahöfn þegar rífa átti Ungdomshuset á …
Miklar óeirðir urðu í Kaupmannahöfn þegar rífa átti Ungdomshuset á Norðurbrú árið 2007. Reuters

Mark Kennedy, breskur lögreglumaður, sem sigldi undir fölsku flaggi í röðum aðgerðasinna, veitti dönsku lögreglunni upplýsingar þegar hópur ungmenna reyndi að koma í veg fyrir að Ungdomshuset, félagsmiðstöð á Norðurbrú í Kaupmannahöfn, yrði rifið árið 2007. Fram hefur komið að maðurinn tók þátt í mótmælum hér á landi árið 2005.

Fjallað er um málið í danska blaðinu Information í dag og vísað til viðtals, sem Kennedy veitti blaðinu Daily Mail. Þar segist hann hafa blandað sér í hóp 50-60 ungmenna, sem höfðu lagt undir sig húsið og neituðu að yfirgefa það. Þetta hafi hann gert til að afla upplýsinga um búnað ungmennanna.

„Þau voru með bensínsprengjur, steypu í fötum á þakinu og fallhlera á gólfinu sem áttu að opnast þegar lögreglumenn stigu á þá. Þessum upplýsingum var komið til dönsku lögreglunnar og byggingin var rýmd," segir Kennedy.

Miklar óeirðir voru í Kaupmannahöfn í febrúar og mars 2007 vegna Ungdomshuset og komu aðgerðarsinnar víða að til að taka þátt í þeim. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert