Álagið hefur verið sérstaklega mikið á starfsfólk Landspítalans undanfarnar vikur þar sem skæðar umgangspestir herja á fólk. Í síðustu viku lágu 730 sjúklingar inni en spítalinn hefur aðeins yfir að ráða um 650 rúmum.
Að auki hefur starfsfólk veikst og þar sem strangt yfirvinnubann er í gildi hafa vaktir verið undirmannaðar.
Kristín Á. Guðmundsdóttir formaður Sjúkraliðafélags Íslands, segist engu að síður hafa heyrt af því meðal sjúkraliða að aukavöktum fjölgi þrátt fyrir yfirvinnubann því undirmönnunin sé svo mikil að þegar einn veikist sé ekki lengur mannskapur til að halda starfinu uppi. „Þá verða þeir að kalla fólk inn og fyrir þetta er greitt með yfirvinnu þannig að maður sér ekki sparnaðinn.“