Snýst um tjáningarfrelsi

Lögreglumenn við Alþingishúsið.
Lögreglumenn við Alþingishúsið.

Persónuvernd hefur vísað frá máli Ágústs Sigurjónssonar rannsóknarlögreglumanns en hann kvartaði yfir því að þingmaðurinn Þráinn Bertelsson áframsendi bréfasendingar þeirra á milli til lögreglustjóra höfuðborgarsvæðisins.

Talið var að málið sneri ekki að lögum um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga, sem embættið hefur eftirlit með, en frekar að því hvort Þráinn hefði farið út fyrir ramma 73. gr. stjórnarskrárinnar um tjáningarfrelsi, og það væri dómstóla að skera úr slíkum vafaatriðum.

Forsaga málsins er sú að Ágúst sendi Þráni, ásamt átta öðrum þingmönnum, tölvupóst í nóvember síðastliðnum vegna aðkomu þeirra að þingsályktunartillögu um að fallið yrði frá kæru á hendur nímenningunum svokölluðu. Þótti honum að þeir, sem fulltrúar löggjafavaldsins, væru að hafa óeðlileg afskipti af störfum dómsvaldsins.

Niðurlag svars Þráins var á þessa leið: „Innihald skeytisins fannst mér vera með þeim hætti að það ætti erindi til yfirmanna í lögreglunni. Frábið ég mér svo frekari bréfaskipti við þig.“

Tilraun til þöggunar

Ágúst bar fram kvörtun til Persónuverndar 8. janúar, þar sem honum þótti Þráinn hvorki hafa haft tilefni né leyfi til að áframsenda póstinn. Hann hefði verið skrifaður utan vinnutíma og sendur úr einkapósthólfi en ekki í krafti starfsheitis, jafnvel þótt hann hefði talað um störf sín í tölvupóstinum.

Í kvörtun sinni sagði Ágúst að miðað við það svar sem hann hefði fengið frá Þráni virtist ástæða þess að pósturinn var sendur til lögreglustjóra vera sú að Þráni líkaði ekki aðfinnslur hans „og tilgangurinn því líklegast sá að þagga niður í mér eða hefna sín á einhvern hátt“.

Út fyrir ramma stjórnarskrár?

Persónuvernd ítrekar í úrskurði sínum að hlutverk sitt sé að hafa eftirlit með framkvæmd laga um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga nr. 77/2000 en segir enn fremur: „Þrátt fyrir að í málinu sé að finna persónuupplýsingar lýtur kjarni úrlausnarefnis þess að því hvort Þ, þingmaður, hafi með tjáningu sinni í orði og verki, þegar hann miðlaði bréfi yðar til lögreglustjóra, farið út fyrir ramma 73. gr. stjórnarskrárinnar.“  
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert