Eiga von á hressilegu flóði

Hross voru rekin á öruggan stað við Auðsholt í dag.
Hross voru rekin á öruggan stað við Auðsholt í dag. mynd/Birgir Örn Steinarsson

Íris Brynja Georgsdóttir bóndi í Auðsholti 4 í Hrunamannahreppi segir vatn fari hægt hækkandi á svæðinu. Svo virðist þó sem að jakastífla hafi myndast í ánni við Hvítárholt.

„Þá á það vatn eftir að koma með látum þegar stíflan brestur,“ segir Íris sem á von á hressilegu flóði þegar það gerist.

Nágrannar voru fyrr í dag í óðaönn við að koma hrossum sínum á þurrt og segir Íris að öll hross séu nú komin að bæjum.

Veðurstofan varaði í morgun við vatnavöxtum á vatnasviði Hvítár í Árnessýslu en þá var mjög mikið rennsli við Fremstaver, efst í ánni.

„Hvítá er stútfull bakkanna á milli og vatn flæðir yfir mýrarnar hjá okkur og nágrönnunum. Það er enn að hækka í og við vitum að það mun hækka enn þegar líður á daginn, því hér er mikil rigning. Það vantar þó mikið upp á að hér fari allt á bólakaf eins og stundum hefur gerst. En við fylgjumst vel með; vatn var mikið við Fremstaver í morgun og það tekur yfirleitt 4 til 6 tíma að skila sér hingað niður eftir,“ sagði Íris Björg í morgun. Hún hafði þó engar áhyggjur af því að ástandið yrði eitthvað í líkingu við það sem gerðist 2006.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert