Margrét Tryggvadóttir, þingmaður Hreyfingarinnar, segir á vef sínum, að hún hafi oft tengt fartölvu sína við net Alþingis með sama hætti og tölva, sem fannst í húsnæði Alþingis fyrir ári, var tengd.
„Eftir kosningar leið dágóður tími þar til nýir þingmenn fengu tölvur
og á meðan notaði ég bara makkann minn, tók netsnúruna úr borðtölvunni sem var
þar fyrir (og úr fartölvudokkunni eftir að hún kom) og vola - ég var komin á
netið! Af öryggisástæðum er þessi kostur nú ekki lengur fyrir hendi og því get
ég ekki lengur ferðast í netheimum á makkanum á skrifstofunni minni," skrifar Margrét en hún er með skrifstofu í húsinu þar sem tölvan fannst.
Hún segir, að á svipuðum tíma og netsamband fyrir einkatölvur hætti að vera valkostur í húsinu hafi auðu skrifstofunni þar sem dularfulla tölvan fannst verið læst og auk þess hafi verið sett upp millihurð í andyrinu.
„Nú vitum við hvers vegna og einnig að öryggismyndavélum í húsinu hefur verið fjölgað. Við höfum hins vegar ekki fengið að vita hvaða reglur gilda um varðveislu eða eyðingu gagna úr þessum öryggismyndavélum en það þarf nauðsynlega að skýra, sérstaklega í ljósi vitnisburðar starfsmanna þingsins í máli nímenninganna sem svo einkennilega vill til að hefði verið aðalfrétt vikunnar ef stóra tölvumálið hefði ekki skutlast inn í umræðuna á síðustu stundu," segir Margrét.
Hún segir, að 28. desember 2009, daginn sem tölvunni dularfullu var stungið í samband, hafi enginn frá WikiLeaks verið á landinu. Þá segir hún marga þingmenn vera reiða vegna málsins, m.a. yfir að hafa ekki verið látnir vita og enginn var spurður um tölvuna, málið hafi bara verið þaggað niður af yfirstjórn þingsins.
„Forseti þingsins sagði forsætisnefnd eftir að málið var opinberað í Morgunblaðinu að hún hefði aðeins sagt formönnum Samfylkingar og Sjálfstæðisflokks frá málinu, Jóhönnu vegna þess að hún er forsætisráðherra en Bjarna því þingflokkur hans er með skrifstofur á hæðinni. Bjarni kannast ekki við hafa verið látinn vita og forseti þingsins segir nú að hún hafi aðeins minnst lítillega á málið við hann. Þinginu öllu sagði hún að lögregla og tölvudeild þingsins hefði beðið um að almennir þingmenn yrðu ekki látnir vita af þessu. Hvorki lögregla né tölvudeildin kannast þó við hafa sent frá sér slíka beiðni. Tölvudeildin bað þó um að málið færi ekki í fjölmiðla því yfirmenn hennar óttuðust að þingið yrði þá skotmark hakkara," segir Margrét.