King segist ekki hafa lofað Icesave-afskriftum

Mervyn King.
Mervyn King. Reuters

Mervyn King,  bankastjóri Englandsbanka, segir ekki rétt að hann hafi hafi sagt Davíð Oddssyni, þáverandi seðlabankastjóra Íslands, í aðdraganda fjármálahrunsins á Íslandi að Íslendingar yrðu ekki krafðir um endurgreiðslu vegna Icesave.

Í viðtali við Viðskiptablaðið um áramótin staðfesti Davíð það sem kemur fram í bók Árna M. Mathiesen, fyrrverandi fjármálaráðherra, að King hafi í samtali við Davíð í aðdraganda hrunsins sagt að Englandsbanki myndi ekki gera þá kröfu að innstæður á Icesave reikningunum yrðu endurgreiddar af Íslendingum. Sagði Davíð að til sé upptaka af þessu samtali þeirra í Seðlabankanum. 

„Þetta er algerlega ósatt. Bankastjórinn sagði Davíð Oddssyni, að hann yrði að grípa til aðgerða til að gæta hagsmuna Íslands. Bbankastjórinn hafði um margra mánaða skeið hvatt íslenska seðlabankann til að draga úr stærð bankakerfisins. Hann skrifaði Oddssyni 23. apríl 2008 þar sem þetta kom skýrt fram," hefur breska blaðið Guardian eftir talsmanni King í dag. 

Í Viðskiptablaðsviðtalinu sagði Davíð að utanríkismálanefnd Alþingis hefði beðið um upptöku af samtali hans og Kings en Seðlabankanum hefði  sagt að hann gæti ekki afhent hana nema með samþykki Englandsbanka. Sér væri þó ekki kunnugt um að Seðlabankinn hafi nokkurn tíma beðið Englandsbanka um leyfi til að láta upptökuna af hendi þannig að ekkert lægi fyrir um afstöðu Englandsbanka til þess.

Frétt Guardian

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka