Komið í veg fyrir að Alþingi yrði hertekið

Einar K. Guðfinnsson bar vitni í málinu gegn nímenningunum í …
Einar K. Guðfinnsson bar vitni í málinu gegn nímenningunum í síðustu viku. mbl.is/Ómar

Einar K. Guðfinnsson, þingmaður Sjálfstæðisflokks, segir á vef sínum, að ef ekki hefði komið til ákveðin og fagmannleg framkoma lögreglu og þingvarða sé augljóst mál að ofbeldisfólk hefði ruðst inn á Alþingi. 

„Það voru lögreglumenn og þingverðir sem afstýrðu því að Alþingi yrði hertekið 8. desember árið 2008. Atburðirnir á þingpöllunum þann dag voru aðeins upphafið. Átökin þar voru ekki hörð. Þingverðir og lögregla komu tiltölulega fljótlega til skjalanna og afstýrðu frekari látum. Það gerðu þeir með lagni og festu, sem dugði þarna.

Í kjölfarið gerðust aðrir atburðir og þeir miklu alvarlegri. Í stigaganginum þar sem almenningur fer um á leið sinni á þingpalla urðu  háskalegir atburðir. Þar urðu átökin mjög hörð. Grímuklæddir einstaklingar reyndu að yfirbuga þingverði og lögreglu og þeir ollu meiðslum. Þar var mikil alvara á ferðum og því nauðsynlegt að láta þá sem ábyrgð bera axla ábyrgð fyrir dómstólum.

Um það snúast réttarhöldin yfir nímenningunum," segir Einar og bætir við, að það sé forkastanlegt þegar reynt sé að gera lítið úr málinu. „Þegar þingmenn reyna að gera lítið úr þessu atviki er það aldeilis makalaust og þeim auðvitað til háborinnar skammar. Þetta er mjög alvarlegt mál."

Vefur Einars K. Guðfinnssonar

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert