Spurning um skaðabótaskyldu

Sveinn Margeirsson, sem sat í stjórn Byrs sparisjóðs, sagði í fréttum Ríkisútvarpsins að menn hljóti að velta því fyrir sér hvort Byr og Glitnir séu ekki skaðabótaskyldir gagnvart þeim stofnfjáreigendum, sem keyptu nýtt stofnfé í Byr.

Héraðsdómur Reykjavíkur komst að þeirri niðurstöðu á föstudag, að  stofnfjáreigendur, sem tóku þátt í stofnfjáraukningu í Byr og Sparisjóði Norðlendinga, hefðu fengið villandi upplýsingar um áhættu sem kynni að fylgja lántöku vegna stofnfjárkaupa.

Glitnir sá um stofnfjárútboðið og lánaði þeim stofnfjáreigendum, sem það vildu, fyrir kaupunum. Héraðsdómur taldi hins vegar að hin ranga upplýsingagjöf, sem Glitnir banki veitti, ógildi lánasamningana á grundvelli samningalaga.

Sveinn sagði, að ekki hefðu allir tekið lán fyrir nýja stofnfénu heldur  staðgreitt, að minnsta kosti hjá Byr. Þeirra fé sé nú glatað.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert