Ögmundur Jónasson, innanríkisráðherra, sagði í þættinum Sprengisandi á Bylgjunni í dag, að hann myndi að óbreyttu styðja lagafrumvarp, sem liggur fyrir Alþingi um nýjan Icesave-samning.
Ögmundur sagði, að sá Icesave-samningur, sem nú liggur fyrir þinginu, sé tugum milljarða króna hagstæðari en sá sem Alþingi samþykkti í árslok 2009 en lögum um samningin var síðan hafnað í þjóðaratkvæðagreiðslu.
„Ég mun styðja þetta að óbreyttu," sagði Ögmundur. „Jafnvel þótt ég sé mjög ósáttur við þetta mál allt í grunninn, þá held ég að ef það verður yfir okkur næstu misserin og árin muni það rífa okkur á hol. Ég held að það sé komið að því að við reynum að ljúka þessu en ég geri það ekki hvað sem það kostar. Ég ætla að sjá hvaða niðurstaða kemur út úr fjárlaganefnd og mun fara rækilega í málið í þingumræðunni."
Ögmundur var annar af tveimur þingmönnum Vinstri grænna, sem greiddu atkvæði gegn lagafrumvarpi um Icesave í desemberlok 2009. Lilja Mósesdóttir greiddi einnig atkvæði gegn samningnum.
Ögmundur sagðist í þættinum einnig vera efins um að gera eigi frekari breytingar á stjórnsýslunni og einkum væri hann efins um réttmæti þess að stofna sérstakt atvinnuvegaráðuneyti með samruna landbúnaðar-, sjávarútvegs- og iðnaðarráðuneyta.
Ögmundur sagði að margir innan raða VG hefðu verið fylgismenn þessara breytinga en aðrir teldu ekki rétt að draga úr stjórnsýslulegu vægi ráðuneytanna þriggja eins og sakir standa.
Þá sagði Ögmundur, að málið tengdist umsóknarferlinu að Evrópusambandinu. Mestur efasemdarmaður þar væri Jón Bjarnason, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra og því vildu margir losna við hann úr ríkisstjórninni.