„Alþýðusambandið hrökk frá sem slíkt. Nú þurfum við bara að ræða við einstök landssambönd,“ segir Vilhjálmur Egilsson, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins. „Það liggur alveg fyrir að málið klárast ekki nema við sjáum til lands í sjávarútvegsmálunum og okkur takist að ljúka þeim.“
Ljóst varð á fundi samninganefnda SA og ASÍ í dag að tilraunir til mótunar samræmdrar launastefnu á vegum heildarsamtakanna til þriggja ára heyra sögunni til. ASÍ getur ekki fallist á það skilyrði SA að fundin verði lausn í sjávarútvegsmálum áður en skrifað verður undir nýja kjarasamninga.
„Það á ekki að koma neinum á óvart. Við höfum sagt þetta mjög lengi. Málið er þó ekki á reit eitt vegna þess að endurskoðunarnefndin [um stjórnkerfi fiskveiða] skilaði af sér í september með víðtækri sátt. Það sem við erum að biðja um er að þessi sátt verði útfærð í lagabúning,“ segir Vilhjálmur.
Hann segir að Samtök atvinnulífsins hafi ekki fengið nein svör frá ríkisstjórninni um að hún vilji á einn eða neinn hátt ræða við SA um sjávarútvegsmálin. „Það er mjög merkilegt út af fyrir sig. Það hefur ekki verið leið til sátta hingað til að vilja ekki ræða við nokkurn mann,“ segir hann.
Vilhjálmur segir að fyrst kjaraviðræðurnar eru nú komnar í þennan farveg muni þessi mál öll taka lengri tíma, „en Samtök atvinnulífsins eru ekki að fara að gera einhvern skammtímasamning,“ segir Vilhjálmur. Samtökin vilja að gerðir verði kjarasamningar til þriggja ára, sem er að sögn Vilhjálms mjög mikilvægt til að eyða óvissu.