Fengu að sjá samtal Davíð og Kings

Mervyn King.
Mervyn King. Reuters

Þingmenn, sem sitja í fjárlaganefnd Alþingis fengu á fundi nefndarinnar í kvöld að sjá útprentun af samtali Davíðs Oddssonar, þáverandi Seðlabankastjóra og Mervyns Kings, bankastjóra Englandsbanka, sem átti sér stað í byrjun október 2008.

Fjárlaganefnd var boðuð til fundar í kvöld um Icesave-samninginn en nefndin fjallar nú um frumvarp um að fjármálaráðherra fái heimild til að staðfesta samninginn.

Þingmennirnir fengu að lesa útprentunina í trúnaði og vildu eftir fundinn ekki tjá sig um innihald samtalsins. Kristján Þór Júlíusson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, sagði að endurritið hefði verið fróðleg lesning.

Davíð sagði nýlega í viðtali við Viðskiptablaðið, að  í samtalinu hefði King sagt að Englandsbanki myndi ekki gera þá kröfu að Íslendingar endurgreiddu innistæður á Icesave-reikningunum. 

King hefur vísað þessu á bug. Breska blaðið Guardian hafði um helgina eftir talsmanni Englandsbanka, að King væri afar reiður vegna þessara staðhæfinga og segði þær algerlega ósannar.

Fram kemur í skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis, að nefndin hafi haft útprentun af samtalinu undir höndum en taldi ekki rétt að birta skjalið í ljósi þess að samtalið virtist ekki hafa verið hljóðritað í samræmi við ákvæði laga um fjarskipti. Þá hafi Mervyn King lagst gegn birtingu þess. 

Haft er í skýrslunni eftir lögfræðingi hjá Englandsbanka, að King hafi ekki vitað að símtalið var hljóðritað og hljóðritunin gangi einnig gegn venjum í samskiptum milli seðlabanka. Í samtalinu hafi einnig komið fram viðkvæmar upplýsingar um margvíslega banka. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert