Gengið í dag frá samkomulagi um starfslok Önnu Skúladóttur, fjármálastjóra Orkuveitunnar. Hefur Ingi Jóhannes Erlingsson, sem var forstöðumaður fjár- og áhættustýringar hjá fyrirtækinu, tekið tímabundið við störfum Önnu.
Helgi Þór Ingason, forstjóri Orkuveitunnar, segir í tilkynningu að þau verkefni, sem sé mest aðkallandi hjá fyrirtækinu nú um mundir, séu tengd fjármögnun þess og hann vilji stilla upp breyttu liði.
Á vegum hans sé nú starfandi samráðshópur með eigendum Orkuveitunnar um fjármögnun fyrirtækisins og verkefna þess og hafi Ingi Jóhannes starfað þétt með þeim hópi.
Ingi Jóhannes hefur undafarin átta ár starfað í fjármálum Orkuveitunnar og síðustu fimm árin sem yfirmaður fjár- og áhættustýringar. Áður starfaði Ingi Jóhannes hjá Íslandsbanka og Flugleiðum við fjárstýringu og hjá Handsali við verðbréfamiðlun og ráðgjöf. Hann er 44 ára, kvæntur Soffíu Halldórsdóttur innkaupafulltrúa og eiga þau tvær dætur, Selmu og Maríu.
Anna hefur verið fjármálastjóri OR frá 2006. Hún fær launagreiðslur í níu mánuði.