Margir á fundi um atvinnumál

Hluti fundargesta í Stapa í Reykjanesbæ í kvöld.
Hluti fundargesta í Stapa í Reykjanesbæ í kvöld.

Margir sóttu opinn fund, sem Samtök atvinnulífsins stóðu fyrir í Reykjanesbæ undir kvöld. Á fundinum var lögð áhersla á atvinnumál en í Reykjanesbæ var atvinnuleysi 13,1% um áramótin.

Vilhjálmur Egilsson, framkvæmdastjóri Samtakanna sagði á fundinum að fjárfestingar í atvinnulífinu væri leiðin út úr kreppunni og skapa þyrfti skilyrði fyrir slíkar fjárfestingar. 

Ragnar Guðmundsson, forstjóri Norðuráls, sagði m.a. á fundinum, að fyrirtækið hefði þegar varið um 15 milljörðum króna til að undirbúa álver við Helguvík. Nú væri öllum undirbúningi  lokið og Norðurál tilbúið til að fara á fulla ferð.  Hins vegar hefðu afskipti stjórnvalda tafið framgang málsins og valdið óvissu.

Ásgeir Margeirsson, stjórnarformaður HS Orku, sagði að tvær framkvæmdaáætlanir fyrir 2011 væru í gangi hjá fyrirtækinu, sú sem nú er í gildi og gerir aðeins ráð fyrir lágmarksframkvæmdum, og önnur sem byggist á þeim forsendum að framkvæmdir við nýjar virkjanir geti hafist. Fyrir þurfi þó að liggja virkjunarleyfi, orkusölusamningar og fjármagn til framkvæmdanna, en ein af forsendum þess að fjármögnun takist sé að óvissu um eignarhald HS Orku verði eytt.

Sagði Ásgeir, að stækkun Reykjanesvirkjunar um 50 megawött væri tilbúin til útboðs og framkvæmdir gætu tekið 2 ár. Áætlað væri að  stækkunin muni kosta 14,6 milljarða og af því hefðu um 4,6 milljarðar verið greiddir.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka