Reglur um aðgengi að þingpöllum voru hertar í kjölfar mikilla mótmæla við Alþingi og atburða sem leiddu til ákærumáls á hendur níu manns, sem nýlega var réttað yfir.
Samkvæmt nýjum reglum þurfa gestir að afhenda þingvörðum töskur, yfirhafnir, höfuðföt, farsíma og myndavélar svo eitthvað sé nefnt, áður en gengið er til palla.
Reglur um aðgang og umgengni í Alþingishúsinu og tengibyggingu voru samþykktar í forsætisnefnd vorið 2007. Þar er að finna ákvæði um að áheyrendur skuli vera kyrrir og hljóðir, hafa slökkt á farsímum og „setja töskur og annan handfarangur í vörslu hjá þingvörðum meðan dvalist er á þingpöllum“.
Forsætisnefnd Alþingis samþykkti svo nýjar reglur um aðgang gesta að þingpöllunum 14. janúar 2009, en á þeim tíma höfðu mótmæli við þinghúsið færst töluvert í vöxt. Var þetta aukinheldur rúmum mánuði eftir uppákomu á þingpöllum sem síðar leiddi til ákæru níu manns sem nýlega var réttað yfir.