Varað við mikilli umferð hreindýra

Hreindýr rétt norðan við Þvottárskriður. Úr myndasafni.
Hreindýr rétt norðan við Þvottárskriður. Úr myndasafni. Mbl.is/Ómar Óskarsson

Greiðfært er á flestum leiðum á Suðurlandi þó eru hálkublettir í kringum Mývatn og á Lyngdalsheiði. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Vegagerðinni.

Á Vesturlandi er hálka á Holtavörðuheiði og Bröttubrekku. Hálkublettir eru á flestum öðrum leiðum.

Á Vestfjörðum er hálka eða hálkublettir nokkuð víða. Vatnsskemmdir haf orðið á Þröskuldum, Steingrímsfjarðarheiði, í Steingrímsfirði og Dýrafirði og eru vegfarendur beðnir um að sýna aðgát.

Á Norðurlandi er hálka eða hálkublettir á flestum leiðum. Flughálka er á Hófaskarði.

Á Austurlandi eru hálkubletti á flestum leiðum og hálka á Breiðdalsheiði.

Á Suðausturlandi er greiðfært.

Vegagerðin og Náttúrustofa Austurlands vilja vara vegfarendur sem leið eiga um Austurland við mikilli umferð hreindýra, sérstaklega á Fagradal. Hætta á árekstrum við hreindýr er mest í skammdeginu og þegar hálka og skafrenningur gera aðstæður erfiðar.

Frá kl. 08:00 mánudaginn 24. janúar verður ásþungi takmarkaður við 10 tonn á Snæfellsnesvegi nr 54 frá Borgarnesi og á öllum vegum á Snæfellsnesi. Á Hvalfjarðarvegi nr 47 og Akrafjallsvegi  nr 51-02 frá Berjadalsá að Hringvegi við Urriðaá.

Þungatakmarkanir eru á  Hafnarvegi (99) og á Hringvegi(1) frá Höfn að Selfossi og á öllum vegum í Árnes og Rangarvallasýslu.

Vegfarendur eru beðnir að hafa í huga að víða er ekki mokstur, eða önnur þjónusta á vegum, á kvöldin og nóttunni. Raunar eru sumir vegir ekki í þjónustu nema fáa daga í viku. Upplýsingar um þjónustutíma eru á vef Vegagerðarinnar og í síma 1777.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert