Vigdís Hauksdóttir, þingmaður Framsóknarflokks, segir allt mistakast sem ríkisstjórnin komi nálægt og ábyrgð á stjórnlagaþingi sé hjá forsætisráðherra. Hún sagði ekki útséð með það hvort þeir sem hafi fengið kjörbréf fari í skaðabótamál við ríkisstjórnina vegna málsins.
Vigdís benti á að Framsóknarflokkur hafi gagnrýnt að stjórnlagaþingið yrði ráðgefandi og einnig þann kostnað sem það myndi kosta þjóðina. Hún vitnaði í fréttir dagsins þar sem komið hefur fram að kostnaðurinn hingað hlaupi á hundruð milljónum króna. Það séu fjármunir sem komi ekki til baka. Vigdís sagði það hreint með ólíkindum að ríkisstjórnin hafi ekki gripið í taumanna þegar kærurnar þrjá voru lagðar fram. Þá þegar hefði átt að stöðva ferli undirbúnings þingsins.
Þá vísaði Vigdís á forsætisráðherra þegar kemur að ábyrgðinni á málinu og sagði Jóhönnu Sigurðardóttur vera barnsmóður stjórnlagaþingsins. „Það mistekst allt sem þessi ríkisstjórn kemur nálægt,“ sagði Vigdís og óskaði ríkisstjórnin til hamingju með daginn.
Þá gagnrýndi hún ræðu Ögmundar Jónassonar, innanríkisráðherra, sem benti á að ekki hefði verið brotið á neinum manni. Hún sagði kosningarétt eitt það mikilvægasta sem einstaklingur getur haft í lýðræðisríki, og ekki sé hægt að tala um þetta mál sem eitthvað grín eða fleipur. Hún sagði orð Ögmundar grafalvarleg enda hafi þrír einstaklingar kært kosninguna.