Ólöf Nordal, varaformaður Sjálfstæðisflokksins, sagði þá niðurstöðu Hæstaréttar að ógilda stjórnlagaþing enn eitt dæmið um óvönduð vinnubrögð ríkisstjórnarinnar. Hún sagði óvissu mikla á Íslandi, ekki síst pólitísk óvissa, og nú hafi það bæst við að Hæstiréttur ógildi almennar kosningar hér á landi. Það bætist við aðra pólitíska óvissu.
Ólöf sagði að framkvæmd stjórnlagaþings sé meirihluta þingsins til vansa. Farið var að stað með miklu offorsi og farið í tilraunastarfsemi um grundvallarmál. Hún benti á að Sjálfstæðisflokkur hafi verið á móti þessu máli og talað gegn því að í málið skyldi farið. Skoðun Sjálfstæðisflokks sé að stjórnskipunarlög skuli vera á hendi Alþingis.
Þá sagði Ólöf að ríkisstjórnin hljóti að taka niðurstöðuna alvarlega og forsætisráðherra íhuga þá stöðu sem upp er komin. Hún treysti á að forsætisráðherra geri þinginu grein fyrir því á morgun hvernig brugðist verður við stöðunni. Ef það er skoðun forsætisráðherra að halda áfram með málið þurfi að leggja fram nýtt lagafrumvarp um stjórnlagaþing.