„Ég er tvímælalaust þeirrar skoðunar að á mínum rétti hafi verið brotið, sem frambjóðanda,“ segir Þorsteinn Arnalds, frambjóðandi til stjórnlagaþings. Hann er ósammála orðum innanríkisráðherra sem sagði á Alþingi nú síðdegis að þótt Hæstiréttur hefði ákveðið að kosningin væri ógild hefði ekki verið brotið á neinum.
Þorsteinn segist hafa lagt í töluverðan kostnað við að kynna sitt framboð og hafi verið nálægt því að ná kjöri. Í samtali við mbl.is segist hann ætla að leita eftir því að fá þann kostnað endurgreiddan. Málið sé í skoðun.
Þá segir Þorsteinn að sér hafi verið misboðið þegar formaður landskjörstjórnar hafi, nokkrum dögum fyrir kosningar, tilkynnt að það yrði brotið á rétti frambjóðenda með því að heimila þeim ekki að hafa fulltrúa á kjörstað til að fylgjast með framkvæmd kosninganna.
„Ég fór í [Laugardals]höllina þegar talningin fór fram, út af því að það stóð í lögunum að þetta ætti að fara fram fyrir opnum dyrum, og ég var þeirrar skoðunar að þessi framkvæmd sem þarna var í gangi væri algjörlega ófullnægjandi. Og það var ekki nokkur leið að vita hvað fólkið var að gera þarna fyrir innan,“ segir Þorsteinn.
Í raun hafi ekki verið neitt eftirlit með talningunni. „Ég fór þarna og var ekkert ánægður með þetta,“ segir Þorsteinn, sem tekur fram að hann hafi þó ákveðið að fara ekki lengra með málið.
„Ég var ekki trúaður á það að gera einhverjar athugasemdir mundi skila neinum árangri,“ segir hann.
Það sé bæði kostnaðarsamt og tímafrekt að leita réttar síns.
„Maður er stimplaður sem kverúlant ef maður fer í svoleiðis mál, sem endar síðan þannig að maður eigi ekki neinn rétt.“