Starfshópur, sem fjallað hefur um Byggðastofnun, segir að ef stofnunin eigi að halda áfram óbreyttri lánastarfsemi megi varlega áætlað reikna með að ríkissjóður þurfi að leggja stofnuninni til 3,5 milljarða króna á næstu fimm árum, þar af 2,5 milljarða til að koma eiginfjárhlutfalli hennar í 8%.
Starfshópurinn segir, að þegar horft sé til umfangs starfsemi Byggðastofnunar er rétt að íhuga hvort ekki megi fækka fulltrúum í stjórn Byggðastofnunar en nú eru stjórnarmenn sjö talsins og jafnmargir til vara.
Þá segir starfshópurinn, að verði lánastarfsemi Byggðastofnunar haldið áfram liggi beint við að huga að þróun fleiri fjármögnunartækja hjá stofnuninni og aðlaga fjármögnunarstarfsemina að aðstæðum í þjóðfélaginu. Reynslan sýni, að eftirspurn eftir lánum hjá stofnuninni dragist saman þegar mikill vöxtur sé í landsframleiðslu.
Langflestar lánveitingar Byggðastofnunar á árunum 1999 – 2009 eru til fyrirtækja í sjávarútvegi og auk þess á svæðum sem eru fámenn, hafa glímt við mikla fólksfækkun undanfarin ár og eru fjarri höfuðborgarsvæðinu.
Í skýrslu starfshópsins segir, að um 4000 störf séu á bak við útlán Byggðastofnunar á landsbyggðinni. Þar af séu 1621 störf í sjávarútvegi.
1. desember 2010 voru 32% íbúa á vinnumarkaði í Vesturbyggð starfandi hjá fyrirtækjum sem eru í viðskiptum við Byggðastofnun.
Samkvæmt úttekt Creditinfo eru 29% fyrirtækja á starfssvæði Byggðastofnunar með áhættu umfram eðlileg mörk og 14% fyrirtækja fá alls ekki á sig áhættumat þar sem þar sem þau eru ógjaldfær eða í alvarlegum vanskilum.