Fara fram á pólitískt óþægindaálag

Ragnheiður Elín Árnadóttir á Alþingi.
Ragnheiður Elín Árnadóttir á Alþingi. mbl.is/Eggert

Ragnheiður Elín Árnadóttir, þingmaður Sjálfstæðisflokks, minntist á það á Alþingi í dag að erlend fjármögnunarfyrirtæki fari nú fram á að pólitískt óþægindaálag sé lagt ofan á fjármögnun sem íslensk fyrirtæki eru að leita eftir. Þetta hafi komið fram í máli forstjóra Norðuráls og forstjóra Magma á fjölmennum fundi í Stapanum í gær.

Að mati Ragnheiðar er þetta vegna pólitískrar óvissu og óstöðuleika hér á landi. „Hér eru í fyrsta sinn erlendir fjárfestar sem eru að skoða fjárfestingu á Íslandi að hugsa um að kaupa sér tryggingu vegna pólitískrar óvissu á Íslandi.“

Steingrímur J. Sigfússon, fjármálaráðherra, sagðist hafa rætt við marga sem eru áhugasamur um að koma til Íslands og þeir óttist það ekki. „Ég tel þar af leiðandi alveg hægt að segja að sá þáttur málsins sé ýktur upp. Ég efast ekkert um það. En það er þægilegt fyrir menn sem eru í þessari stöðu að kenna einhverju svona löguðu um ef svo ber undir.“

Að auki sagði fjármálaráðherra að hann yrði ekki var við það þegar farið er yfir þessi mál með bönkum, fjárfestingarsjóðum eða áhugasömum fjárfestum fyrir hönd stórfyrirtækja að þetta sé áhyggjuefni af þeirra hálfu, heldur þvert á móti átta þeir sig á því í vaxandi mæli að auðvitað eru orkuauðlindir Íslands takmarkaðar.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert