Fleiri fluttu frá landinu en til þess

Frá Leifsstöð.
Frá Leifsstöð. mbl.is/Júlíus

Árið 2010 fluttu 2134 fleiri frá landinu en til þess. Að sögn Hagstofunnar dró úr brottflutningi á árinu miðað við árið áður, þegar 4835 fluttu úr landi umfram aðflutta. 

Alls fluttu 7759 frá landinu á síðasta ári, samanborið við 10.612 á árinu 2009. Alls fluttu 5625 manns til Íslands árið 2010, sem er svipaður fjöldi og árið 2009 þegar 5777 manns fluttu til landsins.

Íslenskir ríkisborgarar voru fleiri en erlendir í hópi brottfluttra, eða 4340 á móti 3419. Hins vegar voru erlendir ríkisborgarar fleiri meðal aðfluttra en íslenskir, 2988 á móti 2637. Alls fluttu því 1703 íslenskir ríkisborgarar úr landi umfram brottflutta, en 431 erlendur ríkisborgari.

Flestir þeirra sem fluttu af landi brott fóru til Noregs, alls 1539 einstaklingar, en brottfluttir til Póllands voru nokkuð færri. Til þessara landa fluttu jafnframt flestir umfram aðflutta. Til Danmerkur fluttu alls 1145, en tveimur færri fluttu þaðan til Íslands.  

Flestir þeir sem fluttu til útlanda á síðasta ári voru á aldrinum 25–29 ára, flestir þó 24 ára af einstaka árgöngum. Fjölmennasti hópur aðfluttra var á aldrinum 20–24 ára. Tíðasti aldur aðfluttra einstaklinga var 22 ára. Þegar tekið er tillit til fjölda brottfluttra umfram aðflutta var mest fækkun vegna fólksflutninga frá landinu í aldurshópnum 30–34 ára. 

Vefur Hagstofunnar

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert