„Það vekur nú furðu mína að menn skuli fara frá borðinu út af annars vegar sjávarútvegsmálum,“ segir Guðbjartur Hannesson velferðarráðherra um að viðræðum ASÍ og SA hafi verið hætt í gær. „Ég sé ekki tenginguna þar á milli fyrir alla atvinnurekendur á Íslandi.“
ASÍ óskaði eftir því að velferðarráðuneytið birti tölur um neysluviðmið fyrir viðræðurnar. Guðbjartur segir að annað hafi aldrei staðið til.
„Það hefur verið í ákveðnu ferli frá því í haust. Við munum birta þær 7. febrúar, við náum því bara því miður ekki fyrr,“ segir Guðbjartur. „Ég harma það að þær skuli ekki vera til fyrr.“ Þessa dagana vinnur starfshópur að skýrslu um neysluviðmiðin og er að ganga frá þeim að sögn ráðherrans.