Íslendingar að missa af tækifæri?

Eiríkur Bergmann doktor í stjórnmálafræði
Eiríkur Bergmann doktor í stjórnmálafræði

Eiríkur Bergmann Einarsson, stjórnmálafræðingur og einn þeirra 25 sem kjörnir voru á stjórnlagaþing, segir það koma sér á óvart að kosningarnar hafi verið dæmdar ógildar. Hann segir það standa upp á stjórnvöld að greiða úr málum í kjölfar úrskurðarins.

„Þetta kemur á óvart, það er ekki hægt að segja annað. Maður er hugsi yfir þessu öllu saman. Ég á eftir að lesa úrskurðinn yfir svo ég átta mig ekki alveg á þessu,“ segir hann.

„Það eina sem ég veit er að ég er með kjörbréf sem segir að ég eigi að taka þetta verkefni að mér útgefið af landskjörstjórn og ég hef í sjálfu sér ekki fengið neina tilkynningu um annað ennþá.“

Eiríkur segir að hann eins og líklega aðrir sem áttu að taka sæti á þinginu hafi gert sínar ráðstafanir vegna vinnu fyrir þann tíma sem þingið átti að taka. Það sé hins vegar ekki aðalatriði í málinu.

Stóra málið sé það að til hafi staðið frá upphafi þegar Íslendingar fengu sjálfstæði árið 1944 að þeir myndu sjálfir setja sér sína eigin stjórnarskrá í stað þess að láta duga að byggja á dönsku stjórnarskránni frá því á 19. öld.

„Þetta tækifæri kom núna með þessum stjórnlagaþingskosningum. Það er í sjálfu sér stórmerkileg tilraun. Ég vildi taka þátt í því og bauð mig því fram til þess. Ég er mest hugsi yfir því að við Íslendingar séum að missa af þessu tækifæri til þess að setja okkur okkar eigin stjórnarskrá,“ segir Eiríkur.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert