„Getur verið að stjórnlagaþingið hafi að einhverju leyti verið lent í vandræðum löngu áður en Hæstiréttur úrskurðaði í dag," sagði Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, þingmaður Framsóknarflokksins, á Alþingi nú síðdegis.
Vísaði hann til þess hve kjörsókn í kosningum til stjórnlagaþings var lítil en aðeins rúmur þriðjungur fólks á kjörskrá mætti á kjörstað. Sagði hann að Alþingi hefði þá hugsanlega átt að ræða það opinskátt hvort það væri ekki í tengslum við almenning og forgangsraða rétt, að aðrir hlutir væru brýnni að mati almennings.
„Við þurfum líka að hafa áhyggjur af því, hvort hér sé orðinn ríkjandi nýr tíðarandi, sem veldur því að við þorum ekki að ræða um hlutina upp á nýtt... Var hugsanlegt að við hefðum átt að ræða málið betur en ekki þorað því?" sagði Sigmundur Davíð. „Er hugsanlegt að þingið sé farið að láta stýrast af ótta?" sagði hann.
Sigmundur Davíð velti því fyrir sér hvort menn ætlist til þess, að dómstólarnir stjórnist einnig af ótta við ástandið og byltinguna. „Á hvaða braut erum við komin þegar við ætlum ekki aðeins að láta þjóðþing Íslendinga stjórnast af ótta heldur ætlumst til þess að dómstólarnir geri það líka. Þess vegna segi ég: Guði sé lof fyrir Hæstarétt og Guði sé lof fyrir það, að dómstólarnir hafa sýnt það að þeir hafa ekki látið etja sér út í að elta tíðarandann á röndum."