Kanadíska orkufyrirtækið Magma Energy Corp. er reiðubúið til viðræðna við íslensk stjórnvöld um styttri leigutíma fyrir nýtingarrétt á jarðhita sem HS Orka nýtir. Magma Energy á 98,5% hlut í HS Orku.
„Við höfum undanfarna níu mánuði boðist til að stytta leigutímann," sagði Alison Thompson, talsmaður Magma, við kanadíska viðskiptavefinn Money.
Ríkisstjórnin samþykkti í dag að fela iðnaðarráðherra og fjármálaráðherra að taka upp viðræður við HS Orku hf., eigendur félagsins og sveitarfélögin sem eigendur auðlindanna og nýtingarréttar þeirra um styttingu leigutímans.
„Þetta eru ekki nýjar fréttir. Þetta hefur verið að þróast í viðræðum við ríkisstjórnina," sagði Thompson.