Einar K. Guðfinnsson, þingmaður Sjálfstæðisflokks, segir ógildingu Hæstaréttar á kosningum til stjórnlagaþings ekkert minna en meiriháttar áfall fyrir lýðræðisríkið Ísland. Hann segir jafnframt að fólkið sem fékk afhent kjörbréf geti lagt þau til hliðar. Þau séu aðeins safngripur.
Í pistli á vefsvæði sínu segir Einar að gríðarlega mikið þurfi að koma til þannig að kosningar séu ógiltar. „Hæstiréttur tiltekur amk. sjö atriði sem aflaga fóru. Meira að segja það grundvallaratriði að kosningarnar voru ekki einu sinni leynilegar,„ segir hann og telur kjarna málsins þann að almennar kosningar hafi verið dæmdar ógildar. „Hingað til höfum við almennt treyst framkvæmd kosninga og lagaumgjörð þeirra. Þetta makalausa klúður mun vekja upp réttmæta tortryggni. Það er skelfilegt að svo sé komið málum.“
Vefsvæði Einars K. Guðfinnssonar