Óhjákvæmilegt að segja starfsmönnunum upp

Eimskipafélag Íslands segir að vegna breytinga á siglingaleið Herjólfs hafi verið nauðsynlegt að endurskoða störf um borð. Í framhaldinu hafi verið óhjákvæmilegt að segja upp nokkrum starfsmönnum sem  sættu sig ekki við starfslýsingar.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá félaginu.

Mbl.is greindi frá því í gær að þremur þernum, sem störfuðu um borð í Vestmannaeyjaferjunni Herjólfi, hafi fengið afhent uppsagnarbréf á sunnudagskvöld eftir að þær óskuðu eftir því að fá stéttarfélög sín til að fara yfir starfslýsingarsamning áður en hann yrði undirritaður.

„Við vildum láta stéttarfélagið okkar skoða hann, og létum skipstjórann vita af því í gær [í fyrradag]. En þá kom hann bara með uppsagnarbréfið og það gildir frá og með 23. [janúar],“ sagði Íris Valgeirsdóttir, ein þernanna,  í samtali við mbl.is.

Tilkynning félagsins er svohljóðandi:

„Vegna frétta af uppsögnum þriggja starfsmanna um borð í Herjólfi vill Eimskipafélag Íslands koma eftirfarandi framfæri.

Vegna breytinga á siglingaleið Herjólfs var nauðsynlegt að endurskoða störf um borð. Komið var til móts við starfsmenn með gerð starfslýsinga sem endurskoða átti að nokkrum mánuðum liðnum. Nokkrir starfsmenn gátu ekki sætt sig við þær starfslýsingar. Því var óhjákvæmilegt að segja þeim upp störfum með kjarasamningsbundnum fyrirvara.

Eimskip hefur ávallt lagt sig fram við að virða ákvæði kjarasamninga starfsmanna sinna eins og gert var í þessu tilviki.  

Eimskip mun ekki ræða frekar um störf einstaka starfsmanna sinna og óskar umræddum fyrrum starfsmönnum velfarnaðar í framtíðinni.“



mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert