„Þetta eru mjög dapurlegar málalyktir vegna þess að það er full ástæða til þess að þó ekki væri annað en að umskrifa þá stjórnarskrá sem við höfum sem er að stofni til frá 1848 þar sem öll byrjunin fjallar um þau vandamál sem Danir eru að kljást við af því að kóngurinn var ekki lengur einvaldur," segir Ómar Ragnarsson sem kjörinn var á stjórnlagaþing í desember.
„Ég tel fulla ástæðu til þess að þjóðin fái sáttmála sem er rökréttur skýr og nútímalegur og þjóðin geti sætt sig við," segir Ómar og neitar því að tækifærið sé nú farið í súginn. „Mér finnst þetta alls ekki glatað tækifæri vegna þess að ég tel að höfuðhugsunin og kannski ástæða þess að svona fór sé sú að við erum að flýta okkur of mikið og ætlum að gera þetta á litlum tíma. Þetta er heilmikið vandaverk og hvort þetta gerist ári fyrr eða seinna finnst mér algjört aukaatriðið miðað við það að núlifandi kynslóð ætli að skila af sér verki sem á að standast tímans tönn og verða okkur til sóma."
Ómar segir að nú sé ekki staður né stund til að benda fingri og kenna öðrum um heldur halda ró sinni og læra á mistökunum. „Það hefur sinn gang hvernig þetta fer en aðalatriðið er að missa ekki sjónar á takmarkinu."