Ríkisstjórnin ákvað í dag fela iðnaðarráðherra að taka þegar í stað upp viðræður við HS Orku, eigendur félagsins, og sveitarfélög á Reykjanesi, um að stytta leigutíma nýtingarréttar á jarðhita.
Fram kom eftir ríkisstjórnarfund í dag, að ríkisstjórnin leggur áherslu á að tryggja ríkinu ótímabundinn forkaupsrétt á hlut Magma Energy Sweden í HS Orku. Jafnframt sé lögð áhersla á að samið verði um kaup opinberra aðila, og innlendra aðila, eins og lífeyrissjóða, á hlutum í HS Orku með frekari kauprétti í framtíðinni.
Einnig var ákveðið að ganga til samninga við Reykjanesbæ um kaup ríkisins á jarðauðlindum í eigu sveitarfélagsins. Í síðustu samþykkti meirihluti bæjarstjórnar Reykjanesbæjar yfir vilja til að bærinn bjóði ríkinu að kaupa land og jarðauðlindir sem Reykjanesbær keypti af HS orku til að auðlindin yrði í samfélagslegri eigu. Þannig færist hún úr sveitarfélagseign og verði þjóðareign.
Iðnaðarráðherra mun leggja fram frumvarp á Alþingi innan skamms í vor þar sem hámarksleigutími á nýtingarrétti vatns- og orkuauðlinda verði styttur úr þeim 65 árum sem lög kveða nú á um.