Sigurður Kári Kristjánsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, vill að stjórnvöld geri þinginu grein fyrir því hvernig hún hyggist bregðast við fréttum þess efnis að Hæstiréttur hafi ógilt kosningar til stjórnlagaþings.
„Eftir þeim upplýsingum sem ég hef aflað mér þá voru allir dómarar Hæstaréttar sammála um þá niðurstöðu,“ segir Sigurður Kári.
„Í mínum huga er auðvitað ekki hægt að reyna koma sökina yfir á landskjörstjórn sem framkvæmdi kosningar í samræmi við þau lög sem fyrir liggja. Hæstiréttur dæmir samkvæmt lögunum og það lítur út fyrir að sú lagasetning sé algjörlega vanbúin, sem leiddi til þessarar niðurstöðu,“ segir Sigurður Kári.
„Þessi niðurstaða sýnir líka að hæstvirt ríkisstjórn er gjörsamlega vanhæf til þess að koma málum sómasamlega frá sér,“ bætti hann við.
Hlé hefur verið gert á þingfundi á meðan þingmenn munu kynna sér málið nánar.